154. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2023.

fjárlög 2024.

1. mál
[16:02]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir svarið og það ætti að vera hæg heimatökin hjá hv. þingmanni þar sem hann er stjórnarliði, hann er í fjárlaganefnd og hann er samflokksmaður fjármálaráðherra þannig að ég hvet hann til dáða í því. Hann hefur talað mikið í gegnum tíðina um byggðamál og ég ætla að halda mig þar í litlu málunum. Það er áhugavert að á málefnasviði 18 er nánast ekkert talað um menningarstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins. Það er að vísu 25 millj. kr. tímabundin hækkun til menningarstarfsemi. Ég spyr hvort hann hafi áhyggjur af þessu í ljósi þeirra breytinga sem voru gerðar þar sem menningarstofnanir á landsbyggðinni þurfa að fara aðrar leiðir heldur en stofnanir hér á höfuðborgarsvæðinu.

Í öðru lagi. Hann kom inn á það líka að það er verið að leggja aftur á gistináttaskatt og gistináttaskatt á skemmtiferðaskip sem er í sjálfu sér rökrétt og ég styð þá aðgerð. Þetta gæti skilað 4,2 milljörðum. Þessi skattur á samkvæmt lögum að nýtast til uppbyggingu ferðamannastaða, stuðla að uppbyggingu, viðhaldi og verndun fjölsóttra ferðamannastaða. En það er áhugavert að á sama tíma er verið að draga úr framlögum til Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða. Ég spyr: Hvernig kemur þetta heim og saman? Hækkunin sem er til Vatnajökulsþjóðgarðs er einungis til komin vegna sértekna, að mér skilst.

Og svo að lokum, af því að málið er nú þingmanninum skylt, þá fær flugþróunarsjóður 150 millj. kr. núna og er gert ráð fyrir lækkun árið 2025 og 2026. Hvernig í ósköpunum getur þingmaðurinn á endanum stutt slíka þróun í samfélagi sem þarf að berjast af krafti gegn því að byggðaþróun raskist enn meira heldur en hún hefur orðið á síðustu 120 árum?